Sjálfbær landnýting

Nýting gróður- og jarðvegsauðlinda telst því aðeins sjálfbær að ekki sé gengið á gæði þeirra. Ávallt skal tryggja gróðurframför á röskuðu landi. Þekking og skilningur á ástandi lands er forsenda þess að landnýting sé sjálfbær.

Fjölbreytt landnotkun

Landnotkun á Íslandi hefur breyst á síðustu árum. Hefðbundinn beitarbúskapur hefur dregist saman en önnur landnýting t.d. útivist og ferðaþjónusta aukist. Þessar breytingar kalla á ný viðhorf í landgræðslustarfinu. Stefna Landgræðslunnar er að stuðla að aukinni ábyrgð landnotenda og að nýting lands sé í samræmi við ástand þess.

Áherslur

 • Hvetja til sjálfbærrar nýtingar lands.
 • Veita bændum og öðrum landeigendum ráðgjöf um landnýtingu og aðstoð við skipulag landnýtingar.
 • Aðstoða við að bæta beitilönd.
 • Stöðva beit á illa förnu landi.
 • Stuðla að því að opinber stuðningur við landbúnað og byggðaþróun tengist betur markmiðum stjórnvalda í umhverfismálum.

Áætlanir og löggjöf um sjálfbæra nýtingu

Stefnumörkun stjórnvalda, lög og reglugerðir og skipulag landnýtingar hefur fjölþætt áhrif á ástand lands og nýtingu jarðvegs og gróðurs. Styrkja þarf aðkomu Landgræðslunnar að slíkri vinnu.

Áherslur

 • Hvetja stjórnvöld til að samræma frekar löggjöf sem hefur áhrif á sjálfbærni landnýtingar og skerpa ábyrgð landnotenda og úrræði vegna ósjálfbærrar landnýtingar.
 • Landgræðslan leggi stjórnvöldum lið í stefnumótun á sviði hverskonar landnýtingar.
 • Stuðla að því að í lögum verði kveðið skýrar á um ábyrgð og skyldur þeirra sem nýta landið og að þeir beri kostnað af nýtingunni sé landið ekki nýtt með sjálfbærum hætti.
 • Stuðla að því að íslensk löggjöf tryggi að skerðing gróðurs sem kann að hljótast af framkvæmdum, verði bætt með uppgræðslu svipaðra gróðurlenda.

Fólk og lífsgæði

Gróður og upplifun af honum hefur jákvæð áhrif á heilsufar og lífsgæði fólks. Hann veitir vernd gegn náttúruvá t.d. foki jarðvegsefna, skriðuföllum og snjóflóðum. Gróður veitir ennfremur skjól gegn veðri og vindum, dregur úr mengun, eykur arð af landi og gefur umhverfinu hlýlegri blæ. Þátttaka í landgræðslustarfi hefur áhrif á viðhorf til verndunar gróðurs og jarðvegs og eykur ábyrgð fólks á umhverfi sínu.

Áherslur

 • Efla samstarf Landgræðslunnar við einstaklinga, sveitarfélög og félagasamtök.
 • Vinna með skólum að verkefnum sem fela í sér fræðslu og upplifun af náttúru landsins.
 • Gera landgræðslusvæði aðgengilegri til fræðslu og útivistar.
 • Styðja í auknum mæli fjölbreytt landbótaverkefni með leiðsögn og fjárframlögum.
 • Gera upplýsingar um ástand lands og landgræðslustarfið aðgengilegar, m.a. á veraldarvefnum.

Auðlindir, arfleifð og lífsgæði

Stefna Landgræðslunnar 2008 – 2020

Viltu senda okkur ábendingu eða athugasemd?