Landgræðsla og gróðureftirlit

Bændur græða landið (BGL)
Verkefnið Bændur græða landið hefur verið unnið í samstarfi Landgræðslunnar og bænda allt frá árinu 1990. Tilgangur verkefnisins er að stöðva jarðvegsrof í heimalöndum bænda, þekja land gróðri og gera það nothæft á ný til landbúnaðar eða annarra nota. Skilyrði fyrir þátttöku er að uppgræðslulandið sé lítt eða ekki gróið og að það sé friðað fyrir beit eða að beitarálag sé hóflegt. Landgræðslan greiðir bændum 85% áburðarkostnaðar og leggur til fræ eins og þörf er á. Landgræðslan veitir bændum auk þess ráðgjöf og hefur eftirlit með framkvæmd verkefnisins. Bændur annast sjálfir uppgræðslustarfið og greiða 15% áburðarkostnaðar.

Framkvæmd verkefnisins
Þátttaka bænda í BGL er dreifð um landið, þó hún sé tiltölulega minni á eldgosabeltinu þar sem jarðvegsrof og gróðureyðing er þó yfirleitt meiri en annars staðar. Ástæðan er líklega sú að á þeim svæðum er mun meira um aðrar landgræðsluaðgerðir, m.a með tilstyrk Landbótasjóðs Landgræðslunnar. Árið 2016 var unnið að uppgræðslu 4.950 ha í verkefninu (tafla 1) og frá upphafi má gera ráð fyrir að BGL bændur hafi grætt upp 35 – 40.000 ha lands.

Landbótasjóður Landgræðslunnar (LBS)
Með Landbótasjóði Landgræðslunnar er m.a. leitast við að færa ábyrgð og framkvæmd landgræðsluverkefna heim í hérað. Við styrkveitingar er lögð áhersla á stöðvun hraðfara jarðvegsrofs og endurheimt gróðurs, jarðvegs og votlendis. Auk þess er lögð áhersla á sjálfbæra landnýtingu og bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi. Við styrkveitingar er að jafnaði gengið út frá að umsækjandi hafi gert landbótaáætlun til a.m.k. þriggja ára.

Umsóknir og úthlutun
Alls bárust 92 umsóknir árið 2016 en voru 54 árið 2015. Árið 2016 var veittur 91 styrkur að upphæð 78 m.kr. og unnið var á ríflega 6.500 ha sem er tvöföldun frá fyrra ári (tafla 1). Aukning á framkvæmdagetu sjóðsins varð fyrst og fremst vegna framlags ríkisins til loftslagsmála en það nam 32,7 m.kr.

Landgræðslusvæði
Landgræðslan vann árið 2016 að uppgræðslu svæða sem eru í umsjá stofnunarinnar. Í flestum tilfellum er um að ræða svæði þar sem er mikið virkt jarðvegsrof og svæðin því erfið viðureignar. Við uppgræðslu þeirra eru notaðar margvíslegar aðferðir s.s. sáning á melgresi, lúpínu, túnvingli og beringspunti en einnig er gróður styrktur með áburðargjöf (tilbúinn og lífrænn áburður). Þá er einnig talsvert plantað af trjám í valin svæði. Alls var unnið á tæplega 2.800 ha á árinu 2016 (tafla 1).

Girðingar
Landgræðslan hefur á sínum snærum um 100 afgirt svæði og nemur lengd girðinga um 770 km. Flestar eru girðingarnar á Norðurlandi eystra og Suðurlandi, enda eru stærstu uppgræðslu- og uppblásturssvæði landsins í þeim landshlutum. Hefðbundið viðhald fer fram á þessum girðingum árlega og árið 2016 voru 12 km girtir upp en engar girðingar voru lagðar af.

Frævinnsla
Landgræðslan starfrækir fræverkunarstöð í Gunnarsholti og meginhlutverk hennar er ræktun og verkun fræs af ýmsum tegundum platna til uppgræðslu. Fræverkunarstöðin hefur um langt skeið framleitt mest af því fræi sem notað er í landgræðslu hér á landi. Fræ af helstu uppgræðslutegundum, þ.e. melgresi, túnvingli og alaskalúpínu er af innlendum uppruna, en annað landgræðslufræ, s.s. vallarsveifgras og rýgresisfræ er innflutt. Árið 2016 var uppskorið fræ af melgresi, beringspunti, túnvingli og alaskalúpínu.

Varnir gegn landbroti (VGL)
Tilgangur laga nr. 91/2002 um varnir gegn landbroti er að vinna gegn landbroti eða öðru tjóni á landi, landkostum eða mannvirkjum af völdum vatna og fer Landgræðslan með framkvæmd laganna. Heimilt er að styrkja verkefni sem ætlað er að vernda mannvirki í eigu einkaaðila og skal þá auglýsa eftir umsóknum um slíka styrki. Hámarksupphæð slíkra styrkja er kr. 3.000.000.
Verkefni í VGL skiptast einkum í bakkavarnir og varnargarða, en sjaldnar er unnið að öðrum verkefnum s.s. tilflutningi farvega eða öðru slíku. Árið 2016 var unnið að 16 verkefnum en árið 2015 voru þau 33. Bar þar hæst dýrar endurbætur á varnargörðum með Kúðafljóti sem skemmdust í kjölfar hlaups í Skaftá í október 2015.

Gæðastýring í sauðfjárframleiðslu
Landgræðslan hefur í umboði Matvælastofnunar annast landnýtingarþátt Gæðastýringar í sauðfjárrækt, skv. stjórnsýslusamningi frá í júní 2014.
Fjöldi þátttakenda í gæðastýringunni árið 2016 var um 1.800 eða heldur fleiri en árið 2015.
Árlega er framkvæmt eftirlit með ákveðnum fjölda þátttakenda í gæðastýringunni. Eftirlitinu er þannig háttað að hluti þátttakenda er valin úr í tilviljanakenndu úrtaki. Árið 2016 sinnti Landgræðsla ríkisins eftirliti með landnýtingu skv. reglugerð 1160/2013 um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu með síðari breytingum. Unnið var að umsögnum um landbótaáætlanir skv. reglugerð nr. 1160/2013 með síðari breytingum. Þá voru uppfærðar 46 landbótaáætlanir á árinu og er gildistími þeirra í flestum tilfellum til og með árinu 2025.

Gæðastýring í hrossarækt
Landgræðslan hefur frá árinu 2000 annast landnýtingarþátt Gæðastýringar í hrossarækt í samvinnu við Fagráð í hrossarækt og Félag hrossabænda. Við framkvæmd verkefnisins er metið hvort landnýting á jörðum þátttakenda sé sjálfbær. Uppfylli þátttakendur sett skilyrði er sjálfbær landnýting formlega vottuð.
Við upphaf verkefnisins árið 2000 fékk 21 bú vottun um sjálfbæra landnýtingu en árið 2016 var fjöldi þeirra 40. Flest urðu vottuð bú árið 2008 þegar þau voru 46 talsins.
Gæðastýring í hrossarækt er þýðingarmikill liður í vöktun Landgræðslunnar á meðferð og nýtingu beitarlands.

 

Aðgerðir í hekturum eftir verkefnum og árum
Ártal Landgræðslusvæði Landbótasjóður Landgræðslunnar Samstarfsverkefni BGL Samtals
2016 2.794 6.529 3.609 4.950 17.882
2015 1.235 3.028 3.962 5.154 13.379
2014 1.730 3.130 3.238 5.036 13.133
2013 1.553 2.957 3.528 5.195 13.233
2012 2.298 3.034 3.046 5.271 13.648

Viltu senda okkur ábendingu eða athugasemd?