Hlutverk og stefna Landgræðslunnar

Landgræðslan er þekkingar- og þjónustustofnun. Markmið hennar eru verndun gróðurs og jarðvegs og bætt landgæði. Stofnunin starfar samkvæmt lögum um landgræðslu nr. 17/1965 og lögum um varnir gegn landbroti nr. 91/2002.

Hlutverk Landgræðslunnar er:

  • Sandgræðsla, sem er hefting jarðvegsrofs og sandfoks, græðsla gróðurlausra og gróðurlítilla landsvæða.
  • Gróðurvernd, sem stuðlar að eflingu gróðurs til að auka mótstöðuafl lands gegn eyðingu.
  • Gróðureftirlit, þar sem fylgst er með nýtingu gróðurs og unnið gegn spjöllum á gróðurlendum.
  • Varnir gegn landbroti af völdum fallvatna, sem ógna eða valda tjóni á landi eða mannvirkjum.

Þátttöku Íslendinga í alþjóðlegu samstarfi fylgja skuldbindingar í umhverfismálum sem hafa áhrif á landgræðslustarfið og þar með hlutverk Landgræðslunnar. Ísland er aðili að ýmsum alþjóðlegum umhverfissamningum og þeir helstu eru:

Rammasamningur um loftslagsbreytingar var samþykktur á umhverfisráðstefnunni í Ríó árið 1992 og tók gildi hér á landi árið 1994. Markmið samningsins er að halda styrk gróðurhúsalofttegunda innan hættumarka svo áhrif þeirra á loftslag jarðar verði sem minnst. Ísland fullgilti Kyoto-bókunina við samninginn árið 2002. Í bókuninni felst m.a. að takmarka megi styrk gróðurhúsalofttegunda með tveimur leiðum. Annarsvegar með minni losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið og hinsvegar með því að fjarlægja koltvísýring úr andrúmslofti m.a. með bindingu hans í gróðri og jarðvegi.

Samningur um verndun líffræðilegrar fjölbreytni stuðlar m.a. að verndun líffræðilegrar fjölbreytni, stöðvun jarðvegsrofs og verndun og uppbyggingu vistkerfa. Hann var samþykktur árið 1992 og tók gildi hér á landi árið 1994. Með jarðvegsverndarstarfinu er viðhaldið búsvæðum dýra, plantna og annarra lífvera. Endurreisnarstarf og endurheimt vistkerfa stuðlar að uppbyggingu búsvæða sem hafa skaðast mikið samhliða búsetu mannsins hér á landi.

Samningur um varnir gegn myndun eyðimarka var samþykktur árið 1994 og tók gildi hér á landi árið 1997. Meginmarkmið hans er að bæta landnýtingu og koma í veg fyrir uppblástur og gróðureyðingu. Kveðið er á um að aðildarríki samningsins starfi eftir sérstökum landgræðsluáætlunum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Ramsarsamningurinn um verndun votlendis var samþykktur árið 1971 og öðlaðist gildi hér á landi árið 1978. Markmið hans er að stuðla að verndun og skynsamlegri nýtingu votlendissvæða, sérstaklega sem búsvæði fyrir votlendisfugla. Landgræðslustarfið stuðlar að bættri vatnsmiðlun sem og vernd og endurreisn votlendis.

Öllum þessum samningum er það sameiginlegt að fjalla um jarðveg og verndun hans sem mikilvægustu auðlind jarðarbúa. Önnur stefnumótandi vinna á alþjóðlegum vettvangi mun einnig hafa áhrif á jarðvegsverndarstarf hér á landi eins og t.d. sameiginleg aðgerðaáætlun Evrópusambandsins til verndar jarðvegi. Til að ná markmiðum landgræðslustarfsins hefur Landgræðslan markað stefnu sem byggir á sjálfbærri þróun. Fullt tillit verði tekið til gildis jarðvegsog gróðurauðlinda landsins og það tryggt að þær skili umhverfislegum, félagslegum sem og efnahagslegum ávinningi til framtíðar.

Stefnu Landgræðslunnar á tímabilinu 2008 til 2020 er lýst í eftirfarandi fjórum köflum:

  • Gróður, jarðvegur og náttúra fjallar um það hvernig best verði unnið að verndun og eflingu vistkerfa, komið í veg fyrir gróðureyðingu og hvernig jarðvegsrof, sem ógnar náttúrunni og öðrum verðmætum, verði stöðvað.
  • Endurheimt vistkerfa fjallar um þau sóknarfæri sem felast í að auka þá þjónustu sem vistkerfi geta veitt til framtíðar. Slík þjónusta vistkerfa felst m.a. í bættri vatnsmiðlun, frjósamara landi og hagkvæmari matvælaframleiðslu, auknu fæðuöryggi, aukinni bindingu kolefnis og fjölgun á búsvæðum fyrir fjölbreyttar lífverur.
  • Fólk og lífsgæði gefur tóninn um það hve mikilvæg heilbrigð vistkerfi eru velferð mannsins, með upplifun á náttúru landsins, aukinni þekkingu og skilningi á eiginleikum hennar, þátttöku í landgræðslustarfi og ábyrgð á því hvernig landið og auðlindir þess eru nytjaðar.
  • Sjálfbær landnýting þýðir að við göngum ekki á höfuðstól auðlinda jarðvegs og gróðurs. Jafnframt ber okkur að tryggja bata þess lands sem hefur eyðst. Þessum markmiðum þarf að ná samhliða því að þjóðin njóti efnahagslegs, félagslegs og umhverfislegs ávinnings af nýtingu þessara auðlinda.

Auðlindir, arfleifð og lífsgæði

Stefna Landgræðslunnar 2008 – 2020

Viltu senda okkur ábendingu eða athugasemd?