Meginhlutverk fræverkunarstöðvar Landgræðslunnar í Gunnarsholti er frærækt og fræverkun tegunda til uppgræðslu.

Landgræðslan hefur starfrækt fræverkunarstöð í Gunnarsholti frá árinu 1988. Meginhlutverk hennar er frærækt og fræverkun tegunda til uppgræðslu. Fræ af helstu uppgræðslutegundum, þ.e. melgresi, beringspunti og alaskalúpínu, fæst ekki á heimsmarkaði og er því heimafengið, en talsvert er flutt inn af vallarsveifgras- túnvinguls- og rýgresisfræi. Auk framleiðslu til eigin nota er fræ selt um allt land en einnig er nokkuð flutt út til Alaska, Grænlands og fleiri landa.

Fræakrar
Fræakrar Landgræðslunnar eru samtals yfir 1000 hektarar, flestir í Gunnarsholti. Melgresi er ekki ræktað á ökrum en melfræi er safnað af strandsvæðum sunnanlands og við Héraðsflóa. Lúpínuakrar eru dreifðir um Suðurland, en megnið af þeim er nálægt Gunnarsholti. Beringspuntsakrar eru nær eingöngu í landi Gunnarsholts. Bændur hafa einnig komið að fræræktun og söfnun, aðallega á lúpínu- og melfræi.

Fræöflun og verkun
Fræöflun fer fram síðla sumars og fram á haust þegar fræþroski nær hámarki, en þó áður en náttúruleg frædreifing hefur átt sér stað. Alaskalúpínan þroskast fyrripart ágúst á undan túnvingli og beringspunti sem þroskast í lok ágúst. Fræþroski melgresis dreifist yfir lengri tíma og stendur melsláttur oft langt fram í september. Fræinu er safnað með þreskivélum eða þar til gerðum melsláttuvélum (melgresi). Þegar í hús er komið, þarf að þurrka og hreinsa fræið.

Gæðaeftirlit
Áhersla er lögð á gæði fræframleiðslunnar og innra gæðaeftirlit. Sýni eru tekin reglulega og frægæði metin samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Hlutfall spírandi fræs er rannsakað með spírunarprófum. Skýrar verklagsreglur um meðhöndlun fræsins stuðla að hámarksgæðum þess og rafrænt birgðabókhald tryggir rekjanleika fræsins (uppruna og meðhöndlun) og réttar merkingar. Samstarf er við Matvælastofnun og starfsstöð Landbúnaðarháskóla Íslands á Möðruvöllum um vottun fræs til útflutnings.

Fræverkun
Vinnsluferlið er í stuttu máli þannig að fræakrar eru slegnir með þreskivélum sem hreinsa fræið frá plöntunum. Því er síðan ekið í fræverkunarstöð Landgræðslunnar. Melgresið er hins vegar slegið með sérstökum heimasmíðuðum sláttuvélum sem safna fræöxunum saman og fræið þreskt frá þegar það er komið í Gunnarsholt. Fræið er síðan þurrkað í gámum, sem eru útbúnir með loftblæstri, sem unnt er að hita.

Að lokinni þurrkun hefst fræhreinsunin í sérhæfðum hreinsivélum. Það er mikið nákvæmnisverk, því takmarkið er að hreinsa burt alla aðskotahluti (strá, laufblöð og annað) og aðskotafræ – fræ af öðrum plöntutegundum en verið er að vinna með. Að hreinsun lokinni er mikið af framleiðslunni húðað með efnum sem gera fræið meðfærilegra við sáningu. Fræið er að lokum sekkjað og geymt á þurrum og köldum stað þar til því er sáð.

Gæðaeftirlit
Mikilvægur þáttur í fræverkuninni og innra gæðaeftirliti framleiðslunnar er að prófa gæði fræsins og eru stöðluð spírunarpróf gerð á öllu fræi sem og mæling á hreinleika. Þegar fræ er selt á erlendum markaði er það prófað á starfsstöð Landbúnaðarháskóla Íslands á Möðruvöllum, en Matvælastofnun vottar fræið.

Reynir Þorsteinsson

Reynir Þorsteinsson

deildarstjóri rekstrardeildar

S. 488 3000 / 488 3002
reynir@land.is

Jón Jónsson

Jón Jónsson

vélamaður

Anne Bau

Anne Bau

líffræðingur

S. 488 3000 / 488 3037
anne@land.is

Viltu senda okkur ábendingu eða athugasemd?