Gróður, jarðvegur og náttúra

Náttúra landsins og tenging hennar við sögu og menningu er arfleifð sem er íslensku þjóðinni dýrmæt. Verndun og efling gróðurs og jarðvegs felur í sér varðveislu þeirrar arfleifðar. Uppbygging fjölbreyttra vistkerfa er mikilvægur þáttur landgræðslustarfsins og er nátengd annarri náttúruvernd.

Verndun jarðvegs og gróðurs

Rannsóknir á jarðvegsrofi hér á landi sýna að talsvert eða mikið jarðvegsrof er á um 40 þús. km2 (um 39% alls landsins). Þar af eru um 17 þús. km2 neðan 500 m h.y.s. Jarðvegsrof ógnar víða gróðri, líffræðilegum fjölbreytileika, byggð og samgöngum.

Áherslur

  • Stöðva hraðfara jarðvegsrof þar sem það ógnar byggð, gróðri, sérstæðum jarðmyndunum og vistkerfum, einkum neðan 500 m h.y.s.
  • Efla samstarf við umráðahafa lands og auka þátttöku þeirra í landbótastarfi.
  • Vernda gróður- og jarðvegsauðlindina, m.a. með auknu eftirlitsstarfi og aðstoð við skipulag nýtingar. Gera héraðsbundnar landgræðsluáætlanir í samráði við hagsmunaaðila í hverju héraði.
  • Stöðva landbrot af völdum fallvatna sem ógnar gróðurlendi, mannvirkjum og samgöngum.

Þekking á vistkerfum

Þekking á vistkerfum, gerð þeirra og þróun er nauðsynleg til að unnt sé að vinna að verndun, uppbyggingu og sjálfbærri nýtingu þeirra. Brýnt er að efla rannsóknir og vöktun á jarðvegsrofi og framvindu gróðurs. Þetta er ekki síst mikilvægt vegna þeirra áhrifa sem loftlagsbreytingar geta haft á íslenska náttúru.

Áherslur

  • Efla greiningu á jarðvegsrofi, gróðurfari og árangri af landgræðslustarfinu, m.a. með fjarkönnunartækni.
  • Auka rannsóknir á bindingu kolefnis í jarðvegi og gróðri sem mótvægisaðgerð gegn loftslagsbreytingum.
  • Vakta ástand lands, nýtingu og breytingar á vistkerfum.
  • Auka vísindalegt samstarf á sviði landgræðslurannsókna, bæði innanlands og alþjóðlega.

Auðlindir, arfleifð og lífsgæði

Stefna Landgræðslunnar 2008 – 2020

Viltu senda okkur ábendingu eða athugasemd?