13. mars, 2019

Endurheimt vistkerfa fær aukið vægi hjá Sþ

Endurheimt vistkerfa fær aukið vægi hjá Sameinuðu þjóðunum næsta áratuginn, þar sem samþykkt var á allsherjarþingi Sþ í byrjun mars að lýsa yfir að 2021 – 2030 yrði áratugur tileinkaður endurheimt vistkerfa.

Vistkerfi hnigna
Hnignun vistkerfa hafs og lands hefur áhrif á líf 3.2 milljarða manna, einkum í Afríku, Asíu og Rómönsku-Ameríku. Kostnaður við hnignun svarar til um 10% af árlegri heimsframleiðslu (GDP) vegna taps á tegundum og þjónustu vistkerfa. Lykilvistkerfi, sem eru nauðsynleg fæðuframleiðslu, framboði á fersku vatni, skapa vernd fyrir náttúruvá og eru búsvæði fyrir tegundir líkt og fiska og frjóbera, hnigna óðum.

Efla þarf náttúruleg ferli
Vistheimt er lykillinn til að snúa slíkri þróun við og efla fæðuöryggi, líffræðilega fjölbreytni og tryggja aðgang að fersku vatni. Áratug SÞ 2021-2030 er ætlað að nýta úrræði sem þegar eru til staðar til að styðja og efla aðgerðir sem forða, draga úr og snúa við hnignun vistkerfa um heim allan. Mikilvægt er að auka skilning á mikilvægi vistheimtar, draga úr ósjálfbærri nýtingu og efla náttúrleg ferli svo vistkerfi nái aftur virkni sinni.

Tveir milljarðar hektara af illa förnu landi
Stefnt er því að fyrir 2030 verði endurheimt 350 milljón hektara lands sem svarar til stærðar Indlands. Samkvæmt UNEP gæti vistheimt af þessari stærðargráðu fjarlægt allt að 13-26 gígatonn af gróðurhúsalofttegundum úr andrúmsloftinu. Endurheimtin gæti skapað þjónustu vistkerfa sem svaraði til virði 9 trilljón Bandaríkjadala. Hvað eru svo 9 trilljónir? Það eru 1090890000000000,00 íslenskar krónur! Eða 9 milljón milljónir eða 9 billjónir dollar eins og sagt er á íslenska vísu.

Samkvæmt UNEP eru meira en 2 milljarðar hektarar af illa förnu landi í heiminum sem hentað gæti fyrir endurheimt.

Endurheimt vistkerfa er grundvallaratriði til ná fram markmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, einkum þeim er snúa að loftslagsbreytingum, útrýmingu fátæktar, matvælaöryggi, vatni og verndun líffræðilegrar fjölbreytni.

Endurheimt og alþjóðasamningar
Endurheimt vistkerfa tengist mörgum alþjóðasamningum á mismunandi sviðum. Samþykkt SÞ leggur áherslu á að endurheimt vistkerfa stuðli að árangri við Áætlun um sjálfbæra þróun árið 2030, Parísarsamnings SÞ um loftslagsmál, Aichi-markmiðanna um líffræðilega fjölbreytni í Stefnuáætlun um líffræðilega fjölbreytni 2011-2020 og aðgerðaráætlun eftir-2020 til að ná fram sýn SÞ til 2050 um líffræðilega fjölbreytni.

Umhverfisstofnun sameinuðu þjóðanna (UN environment) og Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) mun leiða framkvæmdina í samráði við skrifstofur Rio-samningsins sem eru helstu alþjóðasáttmálar um loftslag (UNFCCC), líffræðilega fjölbreytni (UNCBD), og eyðimerkurmyndun (UNCCD) auk annarra fjölhliða samninga um umhverfismál og stofnunum SÞ.

Með því að tileinka næsta áratug endurheimt vistkerfa vilja Sameinuðu þjóðirnar hvetja til þess að flétta hana inn í stefnur og áætlanir sem snúa að forgangsröðun verkefna og þeim áskorunum sem verða til vegna hnignunar vistkerfa hafs og lands þannig að möguleikar skapist fyrir vistkerfi að eflast og auka aðlögunarhæfni sína og viðhalda lífskjörum komandi kynslóða.

Heimsmarkmiðin eru flokkur markmiða og undirmarkmiða sem taka til alls heimsins og ber ríkjum að ná þeim innan fimmtán ára eða fyrir 2030. Öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa innleitt nýju markmiðin 17, og 169 undirmarkmið þeirra, að einhverju leiti. Ísland er þar meðtalið. / Anna María Ágústsdóttir.

Endurheimt vistkerfa tengist sjálfbærnimarkmiðum SÞ einkum:

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heimsmarkmiðin. Sjá síðu Félags Sameinuðu þjóðanna: https://www.un.is/heimsmarkmidin/

Sjá meira efni hér:

https://www.unenvironment.org/news-and-stories/press-release/new-un-decade-ecosystem-restoration-offers-unparalleled-opportunity

https://www.unenvironment.org/news-and-stories/story/new-un-decade-ecosystem-restoration-inspire-bold-un-environment-assembly

http://sdg.iisd.org/news/unga-proclaims-un-decade-on-ecosystem-restoration/

Efnisorð:

Þú gætir haft áhuga á….

Jafnrétti er ákvörðun

Jafnrétti er ákvörðun

Landgræðslan tók á móti Jafnvægisvoginni, viðurkenningu FKA við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 12. október

Máttur til mýranna!

Máttur til mýranna!

Afar mikilvæg alhiða votlendisráðstefna var haldin í Antwerpen 19. – 21. september síðast liðinn. Lögð var fram sameiginleg yfirlýsing um mikilvægi votlendis hvað varðar ýmsar þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir sem Landgræðslan hefur lagt stuðning við.