Endurheimt

Stór hluti þeirra vistkerfa sem einkenndu Ísland við landnám hefur glatast. Þar með hnignaði búsvæðum fjölbreyttra lífvera og lykilþjónusta vistkerfa fór úr skorðum. Endurreisn á virkni vistkerfa er mikilvæg á alþjóðavísu og er sem rauður þráður í öllu landgræðslustarfinu.

Vatn og líffræðileg fjölbreytni
Verndun og efling líffræðilegrar fjölbreytni er eitt af markmiðum landgræðslu. Eyðing jarðvegs og hnignun lykilvistkerfa, t.d. birkiskóga, votlendis og vistgerða sem einkennast af víði, hefur skert líffræðilega fjölbreytni landsins. Vistkerfi eru uppspretta fjölþættra erfðaauðlinda sem eru ómetanlegar til framtíðar. Landgræðsla bætir vatnsbúskap, vatnalíf og vatnsgæði jafnframt því sem hún eykur uppsöfnun lífrænna efna, bætir jarðvegslíf og byggingu jarðvegs almennt. Jarðvegur sem er ríkur af lífrænum efnum geymir vatn sem annars hripar niður. Gróður hægir á yfirborðsrennsli vatns og verndar jarðveg, jafnar vatnsrennsli og dregur úr hættu á bæði flóðum og vatnsþurrð í ám og lækjum, bætir lífsskilyrði fiska og eykur veiði í ám.

Áherslur:
• Auka þekkingu á áhrifum landgræðslu á vatnsmiðlun og vatnsgæði.
• Við skipulag landgræðslu verði tekið tillit til áhrifa hennar á vatnsauðlindir.
• Endurheimta mikilvæg vistkerfi eins og votlendi, birkiskóga og víðigrundir.
• Efla rannsóknir á afleiðingum landhnignunar og áhrifum landgræðslu á líffræðilega fjölbreytni.
• Byggja upp vistkerfi í samræmi við fjölþætt markmið landnýtingar á hverju svæði.

Nytjar
Gróður og jarðvegur er undirstaða fjölþættra nytja s.s. matvælaframleiðslu. Á tímum örrar mannfjölgunar, rýrnandi landkosta og aukinnar samkeppni um ræktarland skipta góðir landkostir æ meira máli.

Áherslur:
• Bæta land til að auka hagkvæmni matvælaframleiðslu og tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar.
• Auka þekkingu á margþættum ávinningi landgræðslu og þeim hagnaði sem samfélagið nýtur af landgræðslustarfinu.

Binding kolefnis
Þjóðir heims gera sér æ betur grein fyrir nauðsyn þess að koma í veg fyrir vaxandi magn koltvísýrings í andrúmsloftinu. Íslenskur eldfjallajarðvegur hefur einstaka hæfileika til að binda kolefni og hér eru stór landsvæði gróðurlítil og kolefnissnauð. Auknu landgræðslustarfi fylgja miklir möguleikar á að binda kolefni.

Áherslur:
• Átak verði gert í bindingu kolefnis með landgræðslu á grundvelli fjölþættra vistfræðilegra-, þjóðfélagslegra- og efnahagslegra markmiða.
• Auka rannsóknir á bindingu kolefnis í jarðvegi og gróðri og losun kolefnis út í andrúmsloftið vegna landhnignunar.
• Byggja upp traust kerfi til að mæla og skrá bindingu kolefnis á landgræðslusvæðum.

 

Viltu senda okkur ábendingu eða athugasemd?