Alþjóðasamstarf

Íslendingar búa yfir mikilli þekkingu og reynslu í tengslum við vernd og endurreisn landkosta, sem mikilvæg er fyrir baráttu annarra þjóða á þessu sviði. Jafnframt er mikilvægt að læra af landgræðslustarfi annarra þjóða til að styðja við okkar eigið starf. Landgræðslan á í margvíslegu alþjóðlegu samstarfi með hliðsjón af þessum markmiðum, m.a. á sviði rannsókna. Meðal erlendra háskóla og stofnana sem gerðir hafa verið samstarfssamningar við eru Ohio State University, University of New England í Ástralíu og Joint Research Centre Evrópuráðsins, sem er á Ítalíu.

Landhnignun er einn alvarlegsti umhverfisvandi heimsins. Varnarbaráttan styrkist þó stöðugt og þekking á endurreisn vistkerfa vex. Þótt aðstæður séu oft ólíkar er margt sameiginlegt með þeim fjölmörgu þjóðum, sem fást við þetta brýna verkefni og alþjóðlegt samstarf um varnir gegn landhnignun skiptir sífelt meira máli.

Árið 2007 hófst þriggja ára verkefni um uppbyggingu alþjóðlegs landgræðsluskóla til að þjálfa fólk frá þróunarríkjum í landgræðslu og jarðvegsvernd. Skólinn er hluti af Háskóla Sameinuðu Þjóðanna eins og Jarðhitaskólinn og Sjávarútvegsskólinn, sem báðir eru starfræktir hér á landi. Verkefnið er kostað af utanríkisráðuneytinu í tengslum við þróunaraðstoð Íslands og framkvæmd þess er sameiginlega á höndum Landgræðslu ríkisins og Landbúnaðarháskóla Íslands.

Nálganir Íslendinga í landgræðslustarfi, ekki síst hvernig tekist hefur að virkja bændur, sveitarfélög og almenning við þetta mikilvæga verkefni, vekja mikla athygli. Í ljósi þess tekur Landgræðslan m.a. þátt í samstarfi um að skoða hvort æskilegt sé að koma á alþjóðlegu ári „landverndar“ (landcare) til að efla slíkt „grasrótarstarf“.

Viltu senda okkur ábendingu eða athugasemd?