Lykilatriði fyrir árangursríka stjórnun að greina þætti sem knýja fram vistkerfisbreytingar

14.5.2018 / Sjálfbær stjórnun landnýtingar krefst góðrar þekkingar á starfsemi vistkerfanna og hvaða þættir knýja virkni þeirra. Sem dæmi má taka að víða á Íslandi hefur átt sér stað umfangsmikil gróður- og jarðvegseyðing sem afleiðing af samþættum áhrifum náttúrlegra ferla á borð við loftslag og eldvirkni auk áhrifa mannsins frá landnámi með skógarhöggi og búfjárbeit. Það er því lykilatriði fyrir árangursríka stjórnun að greina þá þætti sem knýja fram vistkerfisbreytingar, einkum í ljósi þess að við eigum miserfitt með að hafa áhrif á þessa þætti.

Hugmyndafræðileg líkön eru oft gagnleg við að greina þá þekkingu sem er til staðar um viðkomandi vistkerfi og það hvaða þættir valda breytingum á kerfunum. Í rannsókn okkar sem birtist nýlega í tímaritinu LD&D notuðum við svonefnd ástands-og-umskipta líkön (state-and-trasition) til að lýsa vistkerfisbreytingum á Íslandi á þremur tímaskeiðum sem einkennast af mismiklum áhrifum mannsins, allt frá tímabilinu fyrir landnám og fram á okkar daga. Líkönin sýna mengi og ástand mögulegra vistkerfa, umskipti og þröskulda þeirra á milli og breytingar á þeim í tíma.

Niðurstöður okkar benda til þess að með sterkari áhrifum mannsins verða þessi líkön flóknari. Við notuðum dæmi frá miðhálendi Íslands til að sýna hvernig beita má líkönunum til að spá fyrir um áhrif mismunandi landnotkunar. Þessi nálgun getur reynst gagnleg til að greina hvar okkur skortir frekari þekkingu og til að styðja við nýtingarstjórnun og vöktunarverkefni, með því að greina raunhæf markmið fyrir verndun og endurheimt.

Námskeið fyrir kennara um jarðveg, landlæsi, vistheimt og sjálfbærni

7.5.2018 / Laugardaginn 26. maí verður efnt til NaNO námskeiðs um jarðveg, landlæsi, vistheimt og sjálfbærni. Kennt verður í húsnæði Landbúnaðarháskóla Íslands, Árleyni 22, Keldnaholti í Reykjavík. Boðið verður uppá kaffiveitingar og léttan hádegisverð. Markmið námskeiðsins er að auka faglega þekkingu og færni grunnskólakennara á jarðvegsvernd, vistlæsi og sjálfbærni sem hluti af kennslu í grunnskólum. Markhópurinn er grunnskólakennarar en framhaldsskólakennarar einnig velkomnir. Námskeiðið stendur frá kl. 9:30 til 15:30.

Kennsla og leiðsögn: Jóhann Þórsson, vistfræðingur hjá Landgræðslu ríkisins. Guðrún Schmidt, sérfræðingur í menntun til sjálfbærni hjá Landgræðslu ríkisins. Rannveig Magnúsdóttir verkefnistjóri og sérfræðingur hjá Landvernd. Eggert Lárusson, lektor við Menntavísindasvið HÍ.

Gert er ráð fyrir að þátttakendur af landsbyggðunum geti tekið þátt á námskeiðinu í gegnum netið. Skráningargjald: Kr. 5.000.-, skráning er bindandi. Skráning: Skráning (http://natturutorg.is/jardvegur2018/  ). Skráningarfrestur er til 10. maí.

Nánari upplýsingar má finna á http://natturutorg.is/jardvegur2018/
hjá Guðrúnu Schmidt (gudrun@land.is / 4883063) eða Ester Ýri Jónsdóttur (esteryj@hi.is).

Námskeiðið er styrkt af Endurmenntunarsjóði grunnskóla og að því standa NaNO hjá Menntavísindasviði Háskóla Íslands og Landgræðsla ríkisins í samstarfi við Landvernd.

Landgræðslan endurheimtir votlendi í Fjarðabyggð

Landgræðslan endurheimtir votlendi í Fjarðabyggð

 

 4.5.2018 / Á vegum Landgræðslu ríkisins er að hefjast endurheimt á 60 hektara votlendi í Fjarðabyggð. Verkefnið felur einnig í sér vöktun á breytingum sem verða á svæðinu við þessa aðgerð. Þá er ætlunin að útbúa tilheyrandi fræðsluefni fyrir grunnskólanema og almenning. Verkefnið hlaut 150 þúsund dollara styrk frá Samfélagssjóði Alcoa (Alcoa Foundation) og verður unnið í nánu samstarfi við sveitarfélagið Fjarðabyggð.

Það voru þeir Magnús Þór Ásmundsson forstjóri Fjarðaáls, Árni Bragason landgræðslustjóri og Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri Fjarðabyggðar sem hrintu verkefninu af stað með táknrænum hætti þegar þeir hófu að moka ofan í fyrsta skurðinn af mörgum. Athöfnin fór fram 2. maí á Hólmum í Reyðarfirði, en þar verða endurheimtir um 60 hektarar eins og fyrr segir. Votlendi varðveita mikið af kolefnisforða jarðar en ef votlendi er þurrkað upp hefst útblástur gróðurhúsalofttegunda.​

Að lokinni afhendingunni á Hólmum var fundinum haldið áfram í húsakynnum Fjarðaáls en þar fjallaði Magnús Þór um áherslur Fjarðaáls í umhverfismálum og benti á að þrátt fyrir að álframleiðsla hafi aukist hér á landi þá hefur með nýrri og betri tækni verið hægt að draga úr umhverfisáhrifum á sama tíma. Sunna Áskelsdóttir frá Landgræðslunni flutti erindi um endurheimt votlendis og kynnti sérstaklega þau vísindalegu rök sem liggja að baki því að fara í slíkar aðgerðir. Þau Guðrún Schmidt og Rúnar I. Hjartarson starfsmenn Landgræðslunnar á Austurlandi fjölluðu um það sem framundan er í verkefninu í Fjarðabyggð, annars vegar varðandi endurheimt á 60 ha af landi og hins vegar fræðsluefnið sem á að framleiða fyrir grunnskólanemendur. Þá fjallaði Anna Berg Samúelsdóttir umhverfisstjóri Fjarðabyggðar um gæði endurheimtar og Árni Bragason landgræðslustjóri lauk dagskránni með því að tala um lofslagsbreytingar og áhrif þeirra hér á Íslandi auk þess að segja frá nýjum votlendissjóði sem komið hefur verið á fót hér á landi og var nýverið kynntur á Bessastöðum.

 

Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Fjarðaáls afhendir Árna Bragasyni, landgræðslustjóra formlega styrkinn. Á efstu mynd er Árni Bragason að ávarpa gesti.

 

T.f.v.: Magnús Þór Ásmundsson forstjóri Fjarðaáls, Árni Bragason landgræðslustjóri og Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri Fjarðabyggðar

 

 

 

 

 

Landgræðsluverðlaunin afhent á ársfundi Landgræðslunnar

Landgræðsluverðlaunin afhent á ársfundi Landgræðslunnar

27.4.2018 / Í dag voru Landgræðsluverðlaunin 2018 afhent á ársfundi Landgræðslunnar á Grand Hótel í Reykjavík. Þetta var í 28. sinn sem Landgræðsla ríkisins veitir þessi verðlaun. Landgræðsluverðlaunin eru veitt árlega einstaklingum og félagasamtökum sem hafa unnið að landgræðslu og landbótum. Með veitingu landgræðsluverðlaunanna vill Landgræðslan vekja athygli á mikilvægu starfi margra áhugamanna að landgræðslumálum. Verðlaunahafar að þessu sinni voru Hrunamannahreppur, Sigrún Snorradóttir og Guðmundur Eiríksson, Starmýri I í Álftafirði og Ólafur Arnalds doktor í jarðvegsfræðum og prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Verðlaunagripirnir, Fjöregg Landgræðslunnar, eru unnir af Eik-listiðju, Miðhúsum á Fljótsdalshéraði.

Verðlaunahafar ásamt Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfisráðherra og Árna Bragasyni, landgræðslustjóra.

Hrunamannahreppur
Það var árið 2012 sem Landgræðslan og Hrunamannahreppur hófu samstarf um þróunarverkefni um hvernig nýta mætti seyru til landgræðslu. Þetta þótti starfsmönnum Landgræðslunnar mjög spennandi þar sem þeir höfðu síðan 2010 verið að grúska í þessum málum og höfðu þá sett út tilraun til að skoða áhrif seyru á gróðurframvindu. Verkefnið með Hrunamönnum var í fyrstu skipulagt til þriggja ára og fólst í því að sveitarfélagið safnaði seyru úr rotþróm og dreifði henni á illa farið land á afrétti þeirra. Hlutverk Landgræðslunnar fólst í ráðgjöf og úttekt á árangri verkefnisins. Seyran var blönduð með vatni og síðan felld niður í jarðveginn, með þar til gerðum vélbúnaði.

Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri veitti landgræðsluverðlaununum viðtöku fyrir hönd frumkvöðlanna í Hrunamannahreppi.

Við gróðurmælingar þremur árum eftir að verkefnið hófst kom í ljós að gróðurþekjan hafði aukist úr 15 í 65% sem verður að teljast mjög góður árangur eftir einskiptis landgræðsluaðgerð. Það besta við þetta þróunarverkefni er að það dó ekki að þremur árum liðnum heldur öðlaðist framhaldslíf! Sveitarfélagið hóf þá samstarf við fjögur önnur sveitarfélög (Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshrepp, Flóahrepp og Skeiða- og Gnúpverjahrepp) um nýtingu seyru til uppgræðslu og hafa þau byggt upp sameiginlega aðstöðu fyrir verkefnið. Jafnframt hefur aðferðum verið breytt, þannig að seyran er ekki lengur felld ofan í jörðina, heldur er kalki blandað í hana og henni dreift á yfirborð landsins. Kölkunin drepur allar smitandi örverur og því er heimilt að dreifa henni á yfirborðið. Það er mjög gleðilegt að segja frá því að Ásahreppur hefur bæst inn í þetta samstarf, þannig að nú eru sveitarfélögin samtals sex í þessu verkefni – næstum 10% allra sveitarfélaga á Íslandi!   Með þessu verkefni hefur verið rudd braut til að nýta lífrænan úrgang sem fellur til í öllum sveitarfélögum til uppgræðslu. Þannig hefur efni sem áður var meðhöndlað sem úrgangur sem þyrfti að farga, verið breytt í verðmæta afurð. Þetta er mikilvægt fordæmi fyrir önnur sveitarfélög og slíkt frumkvöðlastarf er afar mikils virði.

Sigrún Snorradóttir og Guðmundur Eiríksson, Starmýri I í Álftafirði
Þau hjónin hófu búskap á jörðinni árið 1983 og reka þar sauðfjárbú með um 600 vetrarfóðruðum ám.
Árið 1995 markar ákveðin þáttaskil í uppgræðslu lands á Starmýri en þá tóku bændur á Starmýrarbæjum sig saman og hófu í félagi uppgræðslu mela með kerfisbundnum hætti undir merkjum verkefnisins Bændur græða landið. Það uppgræðslustarf hefur haldist nær óslitið síðan þó að hin síðari ár hafi

Guðmundur og Sigrún áttu ekki heimangengt vegna anna en Eiríkur sonur þeirra veitti verðlaununum viðtöku fyrir þeirra hönd.

aðstæður breyst á nágrannabæjum og verkefnin einskorðast við elju og áhuga þeirra hjóna á Starmýri I.
Mest er um uppgræðslu á víðáttumiklum melum, þar sem mikið er af lausu efni, að uppistöðu úr líparíti, en einnig hefur verið lögð áhersla á að græða upp rofdíla og rofabörð. Mest hefur verið notaður tilbúinn áburður, oft með fræi, en auk þess hafa þau lagt melunum til talsvert magn lífræns áburðar. Mörg árin hefur allt tað sem til fellur á búinu verið notað til uppgræðslu erfiðustu melanna. Starfið ber allt merki mikillar natni, umhyggju fyrir landinu og metnaði í uppgræðslustarfinu.

Nú hafa allstór svæði á Starmýri verið grædd upp, svo eftir er tekið. Frumkvæði bænda á Starmýri I hefur verið hvatning til annarra landeigenda á svæðinu. Þau hjónin hafa rutt brautina fyrir eftirtektarverðan árangur í landgræðslu í sinni heimasveit. Þau hafa ekki hátt um sín verk og um Guðmund hefur verið sagt, og vitnað í Hallgrím Pétursson, „Lítillátur, ljúfur og kátur“.

 

 

 

Ólafur Arnalds
Ólafur Arnalds er doktor í jarðvegsfræðum og prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Hann hefur fengist við rannsóknir á íslenskum jarðvegi um áratuga skeið, þar á meðal rannsóknir á eðli jarðvegsrofs og sandfoks, sem er óvíða meira en hér og hefur mótandi áhrif á vistkerfi landsins. Ólafur hefur

Umhverfisráðherra afhendir Ólafi verðlaunin.

einnig stundað rannsóknir á landgræðslu, kolefnisbindingu í jarðvegi, vistheimt og ástandi lands. Hann er í fagráði Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og kennir þar og á alþjóðlegum vettvangi.

Ólafur hefur verið mikilvirkur í ritstörfum og eftir hann liggja innlend og alþjóðleg fræðirit, auk fjölda ritrýndra greina. Hann hefur einnig verið ötull við að miðla fróðleik um íslenskan jarðveg og ástand vistkerfa til almennings, meðal annars með bókinni að Lesa og lækna landið, sem hann ritaði með konu sinni Dr. Ásu L. Aradóttur prófessor við LBHÍ. Þá heldur hann úti vefsíðunni moldin.net og kom á fót gagnagrunninum Nytjaland sem geymir lykilupplýsingar um allar bújarðir á Íslandi.

Á árunum 1991-1997 stýrði Ólafur kortlagningu jarðvegsrofs á Íslandi og gerð fræðslu- og kennsluefnis um sama efni. Fyrir það verkefni hlaut hann Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 1998. Í umsögn Norðurlandaráðs kom fram að verkefnið hafi stuðlað að aukinni þekkingu Íslendinga á jarðvegseyðingu, vakið skilning á því alvarlega ástandi sem ríkir vegna hennar, og kennt þjóðinni að bregðast við á uppbyggilegan hátt. Það hafi einnig orðið grundvöllur fyrir þátttöku Íslendinga í verkefnum Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna í baráttunni gegn jarðvegseyðingu. Til kosta verkefnisins var einnig talið að það hafi náð til stórs hóps og boðskapurinn sé þýðingarmikill í nútímanum, bæði á Íslandi og alþjóðlega.

Ólafur hefur verið afar virkur í umræðum um umhverfismál og ekki síst verndun íslenskrar moldar. Hann hefur hvergi dregið af sér í þeirri baráttu. Slíkir baráttumenn eru ekki alltaf allra og hljóta oft á tíðum meiri skammir en þakkir.

 

Ársfundur Landgræðslu ríkisins 2018

Ársfundur Landgræðslu ríkisins 2018 verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 27. apríl kl. 14:00-16:30.

Dagskrá:

14:00 Setning fundar
14:05 Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra
14:25 Starfsemi Landgræðslunnar 2017 og horft fram á veginn. Árni Bragason
14:45 GróLind – Bryndís Marteinsdóttir
15:00 Endurheimt votlendis – Sunna Áskelsdóttir
15:15 Lífrænn úrgangur til landgræðslu – Magnús H. Jóhannsson

15:30 Afhending landgræðsluverðlauna

16:00-16:30 Kaffiveitingar

Fundarstjóri er Hulda Karlsdóttir

Gestir eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig fyrir 25. apríl á netfangið eddalinn@land.is

Þorláksskógar: Landgræðslu- og skógræktarverkefni á Hafnarsandi

11.4.2018 / Mánudaginn 16. apríl verður íbúafundur í Ráðhúsinu í Þorlákshöfn. Fundurinn hefst kl. 17:00 og honum lýkur kl.  18:30. Rætt verður um verkefnið Þorláksskóga sem byggist á samningi milli Sveitarfélagsins Ölfuss, Landgræðslu ríkisins og Skógræktarinnar. Samningurinn var undirritaður í október 2016. Fyrirhugað skógræktarsvæði er um 4.620 ha svæði á Hafnarsandi við þéttbýlið Þorlákshöfn. Megin markmið verkefnisins er að græða upp land og rækta skóga til að verjast náttúruvá, vernda byggð og auka nýtingarmöguleika svæðisins, s.s. til útivistar. Einnig að vinna að stefnu íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum í samræmi við Parísarsamkomulagið, endurheimt vistkerfa til að auka líffræðilega fjölbreytni, og framkvæmd laga um skógrækt og laga um landgræðslu, styðja við atvinnuþróun og eflingu byggðar á svæðinu.

Dagskrá:

17:00   Þorláksskógar – hvaða þýðingu hefur verkefnið fyrir samfélagið?
Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri og Árni Bragason, landgræðslustjóri.

17:20   Með sandinn í skónum – reynslusaga íbúa Þorlákshafnar.
Edda Laufey Pálsdóttir, íbúi í Þorlákshöfn.

17:30   Þorláksskógar – markmið, ávinningur, verkáætlun og fjárhagsáætlun.
Garðar Þorfinnsson, Landgræðslu ríkisins og Hreinn Óskarsson, Skógræktinni.

17:50   Engill í eigin tré – framtíðarsýn.
Aðalsteinn Sigurgeirsson, Skógræktinni.

18:10   Fyrirspurnir og umræður.

18:30   Fundarslit.

Fundarstjóri: Anna Björg Níelsdóttir