Mosar eru alls staðar

Mosar eru alls staðar

Mosa er að finna í nánast öllum vistkerfum jarðar og hafa þeir tekið þátt í mótun og þróun þeirra í að minnsta kosti 450 milljón ár. Í dag eru til meira en 20.000 mosategundir sem flokkast í þrjár fylkingar, það er baukmosa (Bryophyta 14.000 teg.), soppmosa (Marchantiophyta 6.000 teg.) og hornmosa (Anthocerotophyta 300 teg.).

Mosavöndur Öll upptaka vatns og næringarefna fer í gegnum blöð mosans. Því fylgir rakastig í vefjum mosans raka umhverfisins. Þetta hefur mótandi áhrif á stærð mosans þar sem það er hagstæðara að vera lítil planta til að halda í vatnsmagnið innan plöntunnar.

Mosavöndur
Öll upptaka vatns og næringarefna fer í gegnum blöð mosans. Því fylgir rakastig í vefjum mosans raka umhverfisins. Þetta hefur mótandi áhrif á stærð mosans þar sem það er hagstæðara að vera lítil planta til að halda í vatnsmagnið innan plöntunnar.

Sexhundruð tegundir á Íslandi
Á Íslandi vaxa samtals um 600 tegundir, baukmosar eru algengastir (460 teg.) og því næst soppmosar (139 teg.). Aðeins ein tegund hornmosa vex á Íslandi, það er hverahnífill (Phaeoceros carolinianus) sem er staðbundinn við jarðhita.

Hafa hvorki rætur né æðakerfi
Mosar eru smávaxnar plöntur og mjúkir viðkomu því þá skortir lignín, efni sem styrkir frumuveggi æðplantna (jafnar, byrkningar, berfrævingar og blómplöntur) og gerir þeim kleift að vaxa upprétt. Mosar hafa hvorki rætur né flutningskerfi líkt og æðplöntur (sáld- og viðarvef) til að taka upp næringu og vatn úr jarðveginum. Þess í stað hafa þeir þróað með sér svokallaða rætlinga, sem þeir nota til að festa sig við yfirborð.

Mosar geta ekki geymt orku
Sólarljós og hitastig eru ásamt raka mikilvægar umhverfisbreytur fyrir ljóstillífun mosa til að framleiða orku. Mosar geta ekki geymt orkuna til lengri tíma og þurfa því að nota hana samstundis til vaxtar eða æxlunar.

Kynlaus æxlun
Fjölgun þeirra er ýmist með gróum (kynæxlun) og/eða kynlausri æxlun þar sem sprotar geta brotnað af stönglinum og náð endurvexti á nýju undirlagi. Mosar eru oftast virkastir í vexti snemma vors og síðla hausts, en þekkt er að þeir séu einnig virkir á veturna.

Mosar eru mikilvægir fyrir kolefnishringrásina
Með lífmassa sínum ljóstillífa þeir líkt og aðrar plöntur og gegna því mikilvægu hlutverki í kolefnishringrásinni. Einnig geta þeir verið í samlífi við blágrænar niturbindandi bakteríur og tekið þátt í næringarefnahringrásum. Framlag mosa í kolefnis- og næringarefnahringrásum fer þó eftir tegundum og umhverfisaðstæðum.

Hlaðmosi.

Hlaðmosi.

Merkilegar og þróttmiklar plöntur
Mosar hafa þróað með sér kerfi til að hægja, jafnvel stöðva efnaskipti sín til að verja frumur sínar í löngum frost- og þurrkatímabilum. Í fyrra fundust meðal annars mosasprotar í 1500 ára gömlum sífrera á Suðurskautslandinu sem náðu endurvexti á tilraunastofu. Þetta þykir afar merkilegt og sýnir fram á endurnýjunarþrótt mosa eftir erfið tímabil. Þrátt fyrir mikla varnarhæfileika gegn þurrki og kulda þá eru þeir afar berskjaldaðir fyrir loftmengun. Þeir hafa ekkert varnarlag á blöðum sínum og taka því upp öll efni sem á þau falla.

Ástand mosa endurspeglar loftgæði
Á Íslandi hefur magn þungmálma verið mælt í tildurmosa (Hylocomium splendens) á fimm ára fresti frá árinu 1990 til að fylgjast með loftborinni mengun. Þetta er viðurkennd aðferð sem hefur verið notuð víðs vegar um heim því magn þungmálma sem safnast fyrir í mosanum endurspegla loftgæðin þar sem hann óx. Á afar menguðum svæðum eru mosar oft mikið skemmdir og geta ekki vaxið.

Melagambri

Melagambri

Mikilvægi mosa á Íslandi
Mosar eru oft ríkjandi í gróðurfari á Íslandi, sérstaklega á nútímahrauni sem þykir afar einstakt á heimsvísu. Þar eru það gamburmosar sem eru með þeim mest áberandi. Þeir geta vaxið á næringarsnauðum holtum, hraunum, söndum og melum, í klettum og fjallshlíðum og eru því mjög mikilvægir í gróðurfrumframvindu.
Þegar þeir ná að mynda þétt yfirborðslag þá geta þeir stuðlað að jarðvegsmyndun, gert yfirborðið stöðugara og viðhaldið raka. Þannig geta lágvaxnir og gisnir mosar myndað örugg set fyrir fræ og kímplöntur og haft jákvæð áhrif á landnám og vöxt annarra plantna. Þegar mosalagið verður hinsvegar of þykkt kemur það í veg fyrir landnám annarra plantna.

Plönturnar sem falla í skuggann
Á Íslandi hefur eldvirkni raskað vistkerfum landsins og haft veruleg mótandi áhrif hvað varðar enduruppbyggingu og þróun þeirra. Mosar eru þar mikilvægur hlekkur ásamt öðrum plöntum í gróðurframvindu. Þeir eru með fyrstu landnemum á nýjum hraunum og á landi sem hefur hopað undan jökli. Á seinni stigum framvindunnar vaxa þeir í flóknari plöntusamfélögum og gegna þar mikilvægu hlutverki þar sem þeir geta stuðlað að aukinni líffræðilegri fjölbreytni. /Texti og ljósmyndir: Ágústa Helgadóttir, líffræðingur.

Tilgangurinn með landgræðslu

17. nóvember 2015. – Hver er tilgangurinn með landgræðslu? Ef landgræðslulögin frá 1965 eru lesin þá kemur greinilega fram að tilgangurinn með starfi Landgræðslunnar er að búa til nytjaland; beitarland fyrir búfé. Með tímanum höfum við hins vegar séð að hlutirnir eru ekki svo einfaldir að Landgræðslan komi bara með fræ og áburð og eftir nokkur ár þá sé komið nýtingarhæft land. Reykir á Skeiðum og Skógey í Hornafirði eru góð dæmi en þau eru auðvitað fleiri.

Meðfylgjandi myndir af Jóhanni Þórssyni, vistfræðingi, voru teknar í landi Reykja á Skeiðum en þar hófst uppgræðsla í byrjun 20. aldar og fljótlega bar uppgræðslan góðan árangur og landið því afhent landeigendum á ný í framhaldi. Landið var beitt eins og venja var og landinu hnignaði uns allt fór í sama far. Friðunaraðgerðir hófust aftur upp úr 1990 og nú má segja að landið sé komið í gott ástand á ný. En hvað mundi gerast ef beit hæfist á nýjan leik? Þolir landið beit? Hvers vegna fer land, sem þó var komið í jafn gott horf og raun bar vitni eins og á Reykjum, jafn illa og raun ber vitni.

Undir örþunnri gróðurhulu er sandur
„Of sjaldan velta menn fyrir sér eiginleikum jarðvegsins sem eru afar mismunandi. Frjósöm mold er forsenda þess að við séum með beitarþolið vistkerfi. Það er ekki allt sem sýnist þegar horft er yfir landið sem var grætt upp á Reykjum. Það lítur vissulega vel út en undir örþunnri gróðurhulu er sandur og hann á lítið skylt við frjósama mold.

Sendinn jarðvegur er mjög erfiður þegar kemur að uppgræðslu. Sandurinn er laus í sér og rofgjarn og hann þolir því ekki mikið rask. Auk þess er sandurinn ófrjósamur og þess vegna á gróður á slíkum svæðum erfitt uppdráttar. Þess vegna þarf að huga sérlega vel að landnýtingu á slíkum svæðum. Vanþekking á eðli jarðvegarins var ástæða þess að uppgræðslan mistókst á Reykjum á sínum tíma. Landið þolir hvorki beit né ágang fyrr en eftir langan, mjög langan tíma.

Biðlund er eina svarið
En auðvitað er sendinn jarðvegur ekki ónýtingarhæft land. Landið í kringum Gunnarsholt á Rangárvöllum er sendið og þar hafa verið ræktaðir upp miklir akrar á tiltölulega skömmum tíma sem gefa vel af sér. Munurinn þar og á t.d. úthaga eins og Reykjum er að í Gunnarsholti er sífellt verið að bæta næringarefnum inn í kerfið með áburði. Þannig styttum við okkur leið í endurheimtarstarfinu. En þetta er kostnaðarsamt og ef landið gefur lítið af sér á hektara eins og beitiland gerir gjarna þá er þetta ekki fær leið. Í tilfelli Reykja – og það sama gildir um mörg önnur landsvæði þar sem jarðvegur er svipaður – er biðlund og hvíld eina svarið.

Sinustigið – skortur á köfnunarefni
Oft er það svo að fólki finnst lítið vera að gerast á landgræðslusvæðum. Þetta á gjarnan við ef um að ræða hrjóstug svæði sem hafa fengið hefðbundinn áburðarskammt. Hins vegar er þetta ekki alskostar rétt. Þó hágróður, grös og blómjurtir virðist eiga erfitt uppdráttar þá er þarna mikið líf, en það það dylst okkur því það er smágert. Þörungar mosar og fléttur ásamt örverum eru að mynda jarðvegsþekju, skán, og grös og blómplöntur mynda fræ og fjölga sér. Ég hef stundum kallað þetta sinustigið. Þetta er upphafsástand landgræðslusvæða þegar köfnunarefni fer að skorta. Í rauninni er þarna komið að ákveðnum þröskuldi sem við eigum ekki svo gott með að ráða við nema með því að bíða, því með tímanum binda þessar lífverur, sem okkur finnast kannski lítilfjörlegar, köfnunarefni sem verður smám saman til reiðu fyrir annan gróður. Það er þegar því stigi er náð sem við förum svo að sjá verulegar breytingar. En þetta getur tekið langan tíma, og það er óhætt að tala um áratugi. Við getum auðvitað stytt okkur leið og dreift áburði en það er dýrt og óraunhæft miðað við umfang þessara svæða.

Svipað ástand og eftir ísöld
Ef við horfum til baka þá má gera ráð fyrir að við lok Ísaldar hafi land verið nær gróðurlaust. Ástandið var eitthvað í líkingu við mörg örfoka landgræðslusvæði eins og við þekkjum þau nú um stundir. Miðað við frjókornagreiningar þá ttók það um 1000 ár frá lokum Ísaldar þangað til við fórum að sjá gras- og birkifrjókorn um nánast allt land. Það hefur semsagt tekið um 1000 ár fyrir gróður að nema land. Þetta er raunverulegi tímaskalinn sem við erum að horfa á og honum getum við ekki breytt nema með því að auka framboð t.d. köfnunarefnis eða búið til sérstakar fræuppsprettur með uppgræðslum inni á þessum svæðum. Köfnunarefninu getum við miðlað t.d. með áburði eða með lúpínu – en þar þurfum við í upphafi endinn að skoða því við að stýra framvindu inn á ákveðnar brautir með þessum inngripum okkar sem við köllum landgræðslu og það er ekki víst að það sem til verður sé það sem við höfðum í huga í upphafi,“ sagði Jóhann Þórsson, vistfræðingur og starfsmaður Landgræðslunnar.

 

 

< Prev
Next >

Auglýsing um styrki til varna gegn landbroti fyrir árið 2016

Landgræðsla ríkisins auglýsir eftir umsóknum um styrki til varna gegn landbroti. Um er að ræða styrki sem veittir eru til slíkra verkefna skv. lögum nr. 91/2002 um varnir gegn landbroti. Styrkirnir eru veittir til hvers konar verkefna til varnar því að vatnsföll eyði mannvirkjum eða gangi á gróið land. Við forgangsröðun verkefna er m.a. höfð hliðsjón af verðmæti þeirra mannvirkja eða lands sem landbrot ógnar.

Umsóknarfrestur er til 15. desember 2015. Umsóknareyðublöð og nánari upplýsingar eru á heimasíðu Landgræðslunnar, www.land.is , en einnig er hægt að hafa samband við Landgræðsluna í Gunnarsholti, sími 488 3000 og héraðssetur Landgræðslunnar um land allt.
Umsóknum skal skila til Landgræðslu ríkisins, Gunnarsholti, 851 Hella eða á netfangið land@land.is

Landgræðsla ríkisins Gunnarsholti, 851 Hella – Sími 488 3000 – Netfang land@land.is

Athugun á samþættingu stofnana

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði fyrr á árinu starfshóp til að skoða leiðir til að samþætta eða sameina stofnanir á sviði náttúruverndar og landgræðslu, með það að markmiði að efla stofnanakerfi ráðuneytisins á sviði verndunar og sjálfbærrar nýtingar náttúru landsins. Starfshópurinn á að skila tillögunum til umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir lok október.

Fundur var haldinn í Gunnarsholti 6. október með starfshópnum og nokkrum starfsmönnum beggja stofnana. Starfsfólkinu var skipt var skipt upp í hópa og leitað var svara við nokkrum atriðum. Síðan var unnið með þau helstu sem nefnd voru í hópunum og niðurstöður dregnar saman. Starfshópurinn mun vinna síðan úr þeim og nýta til að komast að niðurstöðu.
Í frétt frá ráðuneytinu frá því í sumar segir: „Mikilvægt er að stofnanaumgjörð ríkisins endurspegli breyttar þarfir og hafi afl til að takast á við nýjar áskoranir. Ljóst er að með auknu álagi á náttúru landsins vegna ferðamennsku mun verða vaxandi þörf á að efla getu á þessu sviði. Þar má sérstaklega nefna þær áskoranir sem tengjast mikilli þörf á verndaraðgerðum og uppbyggingu vegna hennar, á náttúruverndarsvæðum og almennt í íslenskri náttúru.
Starfshópnum er falið að kanna ávinning af því að sameina verkefni á þessu sviði og skulu eftirfarandi leiðir kannaðar í því sambandi:

Sameining þess hluta starfs Umhverfisstofnunar sem snýr að ofangreindum verkefnum og Landgræðslu ríkisins með staðsetningu í Gunnarsholti.
Sameining Umhverfisstofnunar og Landgræðslu ríkisins, en þá með innri aðskilnaði tilgreindra verkefna og stjórnsýslu. Áhersla verði á skilgreiningu kjarnaverkefna landsbyggðarstarfstöðva.

Starfshópinn skipa:
Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, formaður,
Valgerður Gunnarsdóttir, alþingismaður,
Jón Geir Pétursson, skrifstofustjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneyti,
Stefán Guðmundsson, skrifstofustjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneyti,
Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar og
Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri hjá Landgræðslu ríkisins.

Með hópnum starfar Guðrún Ragnarsdóttir, ráðgjafi auk ritara.“

Meðfylgjandi myndir voru teknar á fundinum í Gunnarsholti.

Bændur styrktir til landgræðslu

Ríkissjóður hefur frá hruni veitt rúmar 600 milljónir króna í styrki til bænda til að græða upp eignarlönd þeirra. Samvinnuverkefni Landgræðslu ríkisins og bænda, Bændur græða landið, kostaði ríkissjóð um 80 milljónir króna í fyrra.Fréttablaðið fjallaði á laugardaginn um samvinnuverkefnið. Tugþúsundir hektara af eignarlandi bænda hafa verið græddar upp með styrk ríkisins frá árinu 1990. „Tilhögun verkefnisins er sú að Landgræðslan greiðir um 85 prósent af verði áburðarins og lætur af hendi landgræðslufræ bændum að kostnaðarlausu,“ segir Sunna Áskelsdóttir, sem annast verkefnið fyrir hönd Landgræðslunnar.

Skilyrði þess að fá að taka þátt í verkefninu er að land bænda, þeirra eigið eignarland, sé illa gróið eða ógróið og þá fá þeir styrk frá hinu opinbera til að gera landið sitt verðmætara og efnisríkara. Rúmlega 500 bændur vítt og breitt um landið hafa tekið þátt í verkefninu árlega frá árinu 1990.

Eftir hrunið árið 2008 þurfti að skera mikið niður í fjárlögum. Þrátt fyrir það, í tíð síðustu ríkisstjórnar, hækkuðu framlögin jafnt og þétt og náðu hámarki árið 2011 þegar rúmum eitt hundrað milljónum var varið í verkefnið. Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, segist sjá margt jákvætt við þetta verkefni og sjálfur hafi hann tekið eftir ýmsum breytingum til hins betra, meðal annars gagnvart skógi og útbreiðslu skóglendis.

„Það má segja að það sé jákvætt þegar menn eru að græða upp bletti þar sem eru birkiskógar nálægt. Óbeint hefur það styrkt skógana því í raun er verið að beina fénu þangað frá viðkvæmari blettum.

Auðvitað er það bara góðra gjalda vert að menn séu að reyna að bæta fyrir ofbeitina og stöðva fok. Þeir hafa þurft að standa í því frá þarsíðustu aldamótum að minnsta kosti,“ segir Þórólfur Matthíasson prófessor, sem mikið hefur skrifað um landbúnaðinn og gagnrýnt ríkisfjármögnun hans hans.

styrkir til uppgræðslu

Ár    upphæð
2014 81,8 m.kr.
2013 87,7 m.kr.
2012 90,8 m.kr.
2011 102,3 m.kr.
2010 91,0 m.kr.
2009 83,2 m.kr.
2008 78,1 m.kr.
samtals 615,0 m.k
/Fréttablaðið 14.10.2015